Galgopaháttur og lygimál

Greinin birtist í Morgunblaðinu 24 febrúar 2011.

Það þykir góð blaðamennska að rannsaka mál eins vel og kostur er áður en frétt er skrifuð. Því miður falla blaðamenn Aftenposten, Lars Magne Sunnana og Kristjan Molstad, í þá gryfju að skrifa frétt, þann 18. febrúar, um efnahagsmál á Íslandi án þess að kynna sér málin. 

Rangfærslunar byrja með fyrirsögninni „Seiler utenom bankgjelden” og undirfyrirsögninni „Islendingerne har sluppet nesten helt unna regningen for krakket í 2008. Ifolge sentralbanken er gjelden til utlandet mindre enn på mange tiår”.   Á íslensku mætti útleggja fyrirsagnirnar á eftirfarandi hátt, „Komast nánast hjá tapi vegna bankahrunsins”  og „Samkvæmt Seðlabanka Íslands eru greiðslur til útlanda lægri nú en um árabil”. 

Hér eru á ferðinni svo villandi upplýsingar að engu tali tekur. Að halda því fram að íslenska þjóðin hafi nánast komist hjá tapi vegna bankahrunsins er móðgun við alla þá sem sárt eiga um að binda vegna stórgallaðs fjármálakerfis, fjármálaglæfra, óhæfra ríkisstjórna og almenns siðferðisbrests, ekki bara á Íslandi heldur út um allann heim. 

Það er staðreynd að verulegur hluti heimila landsins eiga í miklum  fjárhagserfiðleikum sem rekja má til hruns bankanna síðla hausts 2008. Atvinnuleysi er í hæstu hæðum miðað við það sem Íslendingar þekkja og ekki sjáanlegar neinar breytingar á þeirri stöðu. Ekki gera stjórnvöld neitt til að bæta ástandið. 

Steininn tekur þó úr þegar blaðamennirnir vitna í Þórólf Matthíasarson, titlaðan prófessor í hagfræði við Háskóla Íslands. Haft er eftir Þórólfi að Ísland hafi hagnast  á  fjármálabólunni og bankahruninu. Orsakana sé að leita í þeirri staðreynd að Ríkið hafi neitað greiðsluskyldu þegar bankarnir hrundu. Þar með hafi alþjóðlega bankakerfið og fjárfestar orðið að taka tapið. Íslendingar hafi ekki tapað, heldur grætt. 

Er Þólólfur Matthíasarson orðinn snælduvitlaus?  Hvernig er hægt að hafa slík endaskipti á sannleikanum, um hvernig mál hafa þróast hér á landi, síðast liðin ár. Hvernig er hægt að staðhæfa slíka firru um hagnað þegar Þjóðin, ekki alþingi, hafnaði því að greiða skuldir óreiðumanna og einkafyrirtækja.  Almennt er viðurkennt að engin lagaleg rök eru fyrir því að þjóðin greiði þessar skuldir. Fróðlegt verður að vita hvað þjóðin gerir nú þegar hún fær kost á að kjósa um Icesave III. 

Vert er einnig að benda á þá staðreynd að Þórólfur þessi spáði óöld og óáran á Íslandi ef Icesave I yrði ekki samþykkt á Alþingi. Það varð ekki.  Þessi sami Þórólfur spáði nánast heimsendi á Íslandi ef Icesave II yrði ekki samþykkt. Það varð ekki. Hvaða ragnarökum mun Þórólfur þessi spá fyrir um nú, áður en Þjóðin kveður upp sinn dóm. 

Bíðum við,- þessi maður getur ekki verið prófessor í hagfræði. Hann hlýtur að vera prófessor í dómgreindarleysi, afbökun staðreynda, ofstæki og hugsanlega heimsku. Ef ekki er maðurinn haldinn alvarlegum siðferðisbresti. 

Sitthvað sagði Þórólfur fleira sem er svo yfirgengilega vitlaust að engu tali tekur. Hitt er umhugsunarefni að til hans skuli leitað sem álitsgjafa og hann einn borin fyrir áliti um stöðu íslensku þjóðarinnar. 

Ekki góð vinnubrögð hjá blaðamönnum Aftenposten.  

Sjá má greinina í Aftenposten á http://www.aftenposten.no/okonomi/utland/article4034617.ece


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband