Færsluflokkur: Utanríkismál/alþjóðamál

Villandi umræða um Icesave III

Fregnir berast okkur landsmönnum, héðan og þaðan, að líklegast sé að íslensk þjóð muni ekki þurfa að borga neitt sem heitið getur ef Icesave III verður samþykktur í þjóðaratkvæðagreiðslu þann 9. apríl, næstkomandi.

Samninganefndin kappkostar við að sannfæra landann um hversu ásættanlegur þessi samningur er. Haldnir eru blaðamannafundir þar sem lýst er fegurri mynd en fyrr. Allt er þetta nú gott ef satt reynist. En það fylgir böggull skammrifi. Þróun gengismála og innheimtur úr þrotabúi Gamla Landsbankans eru ekki í hendi ásamt fleiri þáttum sem óvissa er um. ÞVÍ ER VERIÐ AÐ SKRIFA UPP Á ÓÚTFYLLTAN VÍXIL MEÐ RÍKISÁBYRGÐ EF SAMNINGURINN VERÐUR SAMÞYKKTUR. Það eina sem gerist þá er að Íslendingar fá bros og klapp á bakið en virðingu enga.

Undrun sætir hversu stjórnvöld á Íslandi hafa sótt fast að ná samningum við Breta og Hollendinga. Samningsmarkmiðið virðist hafa verið og vera aðeins eitt, - að ná samningum og keyra málið í gegn með harðfylgi. Hvaða byrðar eru lagðar á þjóðina er algjört aukaatriði í hugum þeirra sem harðast hafa gengið fram í þessum Icesave málum. Hvaða rök eru fyrir þessu háttalagi Samfylkingar- og VG manna? Eru hagsmunir aðildarsinna að Evrópubandalaginu æðri hagsmunum þjóðarinnar? Spyr sá sem undrast.

Nú hafa bankarnir bæst í hóp þeirra sem fjalla um hinn nýja Icesave samning. Þeir gera það með því að boða til funda undir merkjum hlutleysis og málefnalegrar umfjöllunar. Einn slíkur var Aríon banka sem hélt fund í dag, 3. mars 2011, undir yfirskriftinni "Icesave III, samningaleiðin eða dómstólaleiðin". Umgjörð fundarins var vönduð og veglega veitt af hálfu Aríon banka.

Yfirskrift fundarins er villandi. Það er ekki sjálfgefið að málið fari fyrir dómstóla ef samningurinn verður felldur í þjóðaratkvæðagreiðslu eins og jásinnar reyna að telja þjóðinni trú um. Nánast allir lögfræðingar eru þó sammála um að staða okkar er lagalega góð ef málið fer þá leið. Því er allt eins líklegt að Bretar og Hollendingar kjósi að bíða enn um sinn og sjá hvernig mál þróast. En aftur að fundinum hjá Aríon banka.

Það verður að segjast eins og er að töluverð (já,já,já) slagsíða var á þeim sem fluttu erindi og voru í pallborðinu. Höskuldur H. Ólafsson, bankastjóri Aríon banka, setti fundinn og kom því að í upphafsorðum sínum að hann styddi samninginn sem til umræðu væri. 

Fyrstur tók til máls, Jóhannes Karl Sveinsson, lögfræðingur, sem átti sæti í samninganefndinni. Hann talaði fyrir samningnum þó óbeint væri. Ekkert óeðlilegt við að maðurinn tali fyrir samningi sem hann átti þátt í. Andrew Speirs, erlendur ráðgjafi, tók næst til máls og fjallaði almennt um (slæma) stöðu Íslands í samfélagi þjóðanna. Hann má þó eiga það að hann sagði að Bretar og Hollendingar hefðu ekki áhuga á að fara með málið fyrir dómstóla. Ástæðan væri sú að þeir vildu ekki hrófla við fjármálakerfinu sem er við lýði. Að öðru leyti talaði hann fyrir samningnum með sínum hætti.

Að loknum erindum þessara tveggja já manna settust þeir við pallborðið ásamt Þorsteini Vilhjálmssyni, hörðum já-manni og Sigurði Hannessyni (Indefence) sem er efasemdarmaður um samninginn.

Hvar voru Nei-mennirnir? Var þeim ekki boðin þátttaka?


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband